Tuesday, May 1, 2007

Próf, sviti og tár

Próftíðin er hafin hjá mér og það fyllir mig ekki neinni gleði frekar en fyrri daginn. Það er fátt skemmtilegt við það að semja próf eða taka á móti illu augnaráði nemenda þegar maður mætir á svæðið til að svara hugsanlegum spurningum þeirra. Það er heldur ekki gaman að hlusta á kvartanir yfir því hvað prófið hafi verið ómögulegt og svívirðilegt eins og ég hef svo oft þurft að gera. Verst af öllu er þó að þurfa að eyða mörgum dögum í að fara yfir allan prófbunkann þegar maður vildi miklu heldur geta einbeitt sér að rannsóknum og greinaskrifum.

En auðvitað væri hægt að létta sér lífið með því að semja próf sem eru bæði stutt og auðveld. Þá myndi enginn kvarta og prófyfirferðin tæki minni tíma. Gallinn er bara sá að ég hef aldrei getað fallist á þá hugmynd að hlutverk kennarans sé bara að koma nemendum í gegnum eitthvað tiltekið námsefni á sem þægilegastan hátt. Mér finnst miklu mikilvægara að háskólanám búi fólk undir líf og störf að loknu námi því á þeim vettvangi þarf sífellt að leysa verkefni sem maður hefur hefur aldrei leyst áður. Ég hef sjálfur notið ómælds góðs af því að hafa farið í gegnum erfitt og krefjandi nám og ég er ekki enn orðinn svo slappur og metnaðarlaus að ég vilji bjóða nemendum mínum upp á eitthvað sem er miklu lakara en það.

Thursday, April 19, 2007

Sumar og sól

Það er sumardagurinn fyrsti í dag og af því tilefni hefur sólin skinið á okkur íbúa höfuðborgarinnar. Það væri nú samt synd að segja að það væri hlýtt. Það fannst mér a.m.k. ekki þegar ég fór út áðan að kaupa í matinn og skoða rústirnar af brunanum í miðbænum í gær. Þegar ég var búinn að glápa nægju mína á skemmtistaðinn Pravda vippaði ég mér inn í 10/11 í Austurstræti. Ég stoppaði ekki lengi við enda er ég ekki haldinn neinum valkvíða þegar kemur að mat. Ég gríp bara það sem matgræðgin segir mér að kaupa í hvert sinn. Þegar ég kom að kassanum sá ég forsíðuna á DV. Þar er vitnað í Steinunni í Nylon sem segir að Nylon-stelpurnar séu ekki heimskar. Það er gott að vita það en sagði ekki Nixon á sínum tíma að hann væri nú enginn skúrkur??

Wednesday, April 11, 2007

Næsta vers

Páskafríið var bara gott þótt ég hafi ekki farið neina Þórbergsferð með tilheyrandi gjörningum og ölæði. Ég náði a.m.k. að gera eitthvað af því sem ég hefði átt að vera búinn að gera fyrir löngu ef ekki væri fyrir þessa sífelldu truflun sem kallast kennsla. En því fer nú brátt að ljúka og þá er hægt að fara að einbeita sér að öllum greinunum og fyrirlestrunum sem maður á eftir að semja og öllum rannsóknarverkefnunum sem eru að fara í gang. Samt er það nú þannig að þegar nemendur eru horfnir úr Árnagarði, að þá er eins og kyrrð dauðans færist fyrir staðinn. Maður hefur þá ómældan tíma til að stunda rannsóknir en sú inspírasjón sem fæst af umhverfinu er algerlega horfin. Að vísu verður nokkur hópur íslenskunema hér á sveimi í allt sumar í tengslum við ýmis rannsóknarverkefni í málfræði en þessir prúðu fyrirmyndarnemar koma nú ekki alveg í staðinn fyrir það ólgandi mannhaf sem oft mætir manni þegar kennslan er í fullum gangi.

Monday, April 2, 2007

Føroyskur tónleikur

Ég skellti mér á færeysku tónlistarhátíðina AME á Nasa á laugardagskvöldið. Það var "sera stuttligt" og gerði ekkert annað en að auka á þá miklu og stigvaxandi Færeyjadellu sem ég er haldinn. Það var sérstaklega gaman að heyra í Teiti þótt skvaldur áheyrenda hafi spillt þeirri upplifun að nokkru leyti. Eivør stóð líka mjög vel fyrir sínu eins og við var að búast. Og öllum væntanlegum Færeyjaförum í hópi íslenskunema vil ég benda á að það er hægt að nálgast verðlaunalag Eivarar "Grát ei" á ensku útgáfunni af heimasíðunni hennar en það er ágæt æfing í færeysku að hlusta á þetta hugljúfa lag.

Ég hélt reyndar ekki út allt prógrammið á laugardaginn því ég ákvað að sleppa hljómsveitinni Gestir sem stigu síðastir á svið. Ég heyrði í þeim á AME í fyrra og mér fannst þeir þá framleiða meiri hávaða en eiginlega tónlist. Það getur verið að það séu einhver ellimörk að kunna ekki að meta háværa rokktónlist en mér er slétt sama. Manni hlýtur að leyfast að hafa takmarkað umburðarlyndi á einhverjum sviðum.

Monday, March 26, 2007

(Ó)spennandi námskeið

Nú eru íslenskunemar í óða önn að skrá sig í námskeið næsta vetrar. Ég veit ekki hvað kemur út úr því en einhvern veginn grunar mig að menn muni fyrst og fremst velja "spennandi" námskeið. Ég hef reyndar aldrei skilið hvaða mælistika er notuð í svona vali því fyrir mér eru ekki til nein viðfangsefni sem eru spennandi eða óspennandi í sjálfu sér. Viðfangsefni eru spennandi ef þau eru sett í sæmilega stórt fræðilegt samhengi en annars eru þau einfaldlega óspennandi.

Ég er líka nógu gamall (eða ætti ég að segja "reynslumikill"?) til að vita að spennandi námskeið eru ekkert endilega lærdómsrík og lærdómsrík námskeið eru ekkert endilega spennandi. Og þegar ég lít til baka, þá get ég sannarlega sagt að ég hafi lært mikið af kennurum sem voru inspírerandi og skemmtilegir en líklega hef ég þó lært enn þá meira af þeim sem voru kröfuharðir og leiðinlegir. Ég læt svo aðra um að dæma um það hvorum hópnum ég tilheyri sem kennari.

Friday, March 23, 2007

Hljómur framtíðarinnar

Það eru ekki margir sem vita að ég hef lagt fram örlítinn skerf til sögu íslenskrar dægurtónlistar. Og það sem meira er, þessi skerfur er svo lítill að ég var löngu búinn að gleyma honum þegar hann allt í einu rifjast upp fyrir mér síðastliðið miðvikudagskvöld. Þá heyrði ég viðtal í útvarpinu við tvo menn sem voru í tölvupopphljómsveitinni Sonus futurae sem starfaði í byrjun 9. áratugarins. Þetta mál er mér skylt því bróðir minn (sem er ári yngri en ég og býr núna í USA) var einn af aðalmönnunum í þessari hljómsveit og hann leitaði til mín þegar verið var að finna henni nafn. Hann vildi fá latneskt nafn sem merki 'hljómur framtíðarinnar' eða eitthvað því um líkt og með latneska orðabók að vopni var ég fljótur að greiða úr því: Hljómsveitin skyldi heita "Sonus futurae". Stuttu síðar var svo hljómsveitin að troða upp í MR og þá kom einn af latínukennurum skólans og benti þeim félögunum á að "Sonus futurae" væri ekki boðleg latína. Hljómsveitin ætti fremur að heita "Sonus futurus" (en "futurus" er lýsingarorð myndað af "futura" sem merkir 'framtíð'). Þá var auðvitað orðið of seint að breyta nafninu svo hljómsveitin sat uppi með mína brengluðu latnesku nafngift. Ég fékk þó aldrei neinar skammir fyrir þetta og hef ekkert samviskubit því hljómsveitin stóð aldrei undir nafni hvort sem var og lagði upp laupana tveimur árum eftir að hún var stofnuð.

Sunday, March 18, 2007

Mímisþing

Ég held að enginn hafi verið svikinn af Mímisþinginu í ReykjavíkurAkademíunni í gær en þar fluttu 9 íslenskunemar fyrirlestra um hin aðskiljanlegustu efni innan íslenskra fræða. Mér fannst allt koma saman svo úr varð einstaklega vel heppnað málþing, þ.e. fróðlegir fyrirlestrar, fjörugar umræður og góðar veitingar.

Mímisþingið í gær var líka skemmtilega þverfaglegt því kennararnir á staðnum voru ekkert að takmarka sig við sín sérsvið í spurningum og umræðum eftir fyrirlestrana. Þetta hefur kannski komið einhverjum íslenskunemum á óvart en skýringin er mjög einföld: sá sem hefur lifandi áhuga á einhverju sviði innan íslenskra fræða þarf mjög litla örvun til að flytja þann áhuga yfir á önnur svið eða jafnvel aðrar fræðigreinar. Það er því auðvelt fyrir málfræðing eins og mig að sogast inn í fyrirlestra um ævintýri og fantasíur eða bíla í ljóðum atómskáldanna.

Það má margt læra af Mímisþinginu í gær en það sem stendur upp úr í mínum huga núna er að þessi viðburður getur verið mikilvægur innblástur fyrir þverfagleg námskeið og rannsóknarverkefni af ýmsu tagi innan íslenskuskorar á næstu árum.