Monday, March 26, 2007

(Ó)spennandi námskeið

Nú eru íslenskunemar í óða önn að skrá sig í námskeið næsta vetrar. Ég veit ekki hvað kemur út úr því en einhvern veginn grunar mig að menn muni fyrst og fremst velja "spennandi" námskeið. Ég hef reyndar aldrei skilið hvaða mælistika er notuð í svona vali því fyrir mér eru ekki til nein viðfangsefni sem eru spennandi eða óspennandi í sjálfu sér. Viðfangsefni eru spennandi ef þau eru sett í sæmilega stórt fræðilegt samhengi en annars eru þau einfaldlega óspennandi.

Ég er líka nógu gamall (eða ætti ég að segja "reynslumikill"?) til að vita að spennandi námskeið eru ekkert endilega lærdómsrík og lærdómsrík námskeið eru ekkert endilega spennandi. Og þegar ég lít til baka, þá get ég sannarlega sagt að ég hafi lært mikið af kennurum sem voru inspírerandi og skemmtilegir en líklega hef ég þó lært enn þá meira af þeim sem voru kröfuharðir og leiðinlegir. Ég læt svo aðra um að dæma um það hvorum hópnum ég tilheyri sem kennari.

Friday, March 23, 2007

Hljómur framtíðarinnar

Það eru ekki margir sem vita að ég hef lagt fram örlítinn skerf til sögu íslenskrar dægurtónlistar. Og það sem meira er, þessi skerfur er svo lítill að ég var löngu búinn að gleyma honum þegar hann allt í einu rifjast upp fyrir mér síðastliðið miðvikudagskvöld. Þá heyrði ég viðtal í útvarpinu við tvo menn sem voru í tölvupopphljómsveitinni Sonus futurae sem starfaði í byrjun 9. áratugarins. Þetta mál er mér skylt því bróðir minn (sem er ári yngri en ég og býr núna í USA) var einn af aðalmönnunum í þessari hljómsveit og hann leitaði til mín þegar verið var að finna henni nafn. Hann vildi fá latneskt nafn sem merki 'hljómur framtíðarinnar' eða eitthvað því um líkt og með latneska orðabók að vopni var ég fljótur að greiða úr því: Hljómsveitin skyldi heita "Sonus futurae". Stuttu síðar var svo hljómsveitin að troða upp í MR og þá kom einn af latínukennurum skólans og benti þeim félögunum á að "Sonus futurae" væri ekki boðleg latína. Hljómsveitin ætti fremur að heita "Sonus futurus" (en "futurus" er lýsingarorð myndað af "futura" sem merkir 'framtíð'). Þá var auðvitað orðið of seint að breyta nafninu svo hljómsveitin sat uppi með mína brengluðu latnesku nafngift. Ég fékk þó aldrei neinar skammir fyrir þetta og hef ekkert samviskubit því hljómsveitin stóð aldrei undir nafni hvort sem var og lagði upp laupana tveimur árum eftir að hún var stofnuð.

Sunday, March 18, 2007

Mímisþing

Ég held að enginn hafi verið svikinn af Mímisþinginu í ReykjavíkurAkademíunni í gær en þar fluttu 9 íslenskunemar fyrirlestra um hin aðskiljanlegustu efni innan íslenskra fræða. Mér fannst allt koma saman svo úr varð einstaklega vel heppnað málþing, þ.e. fróðlegir fyrirlestrar, fjörugar umræður og góðar veitingar.

Mímisþingið í gær var líka skemmtilega þverfaglegt því kennararnir á staðnum voru ekkert að takmarka sig við sín sérsvið í spurningum og umræðum eftir fyrirlestrana. Þetta hefur kannski komið einhverjum íslenskunemum á óvart en skýringin er mjög einföld: sá sem hefur lifandi áhuga á einhverju sviði innan íslenskra fræða þarf mjög litla örvun til að flytja þann áhuga yfir á önnur svið eða jafnvel aðrar fræðigreinar. Það er því auðvelt fyrir málfræðing eins og mig að sogast inn í fyrirlestra um ævintýri og fantasíur eða bíla í ljóðum atómskáldanna.

Það má margt læra af Mímisþinginu í gær en það sem stendur upp úr í mínum huga núna er að þessi viðburður getur verið mikilvægur innblástur fyrir þverfagleg námskeið og rannsóknarverkefni af ýmsu tagi innan íslenskuskorar á næstu árum.

Saturday, March 10, 2007

Skuldadagar

Það hlaut að koma að því að mér hefndist fyrir þann ósið að lesa bloggsíður nemenda. Nú hafa mínir ástkæru nemendur stofnað bloggsíðu fyrir mig og því fylgir náttúrulega sú kvöð að ég þarf að blogga reglulega um mitt háskalega líf sem háskólakennari. Reyndar hef ég ekki lent í neinum háska síðan mér var tilkynnt um þessa bloggsíðu á árshátíð Mímis í gær, ef frá eru talin nokkur rifrildi við bókmenntasinnaða Mímisliða. En það er auðvitað háski sem allir málfræðingar þurfa að búa við, eða eins og stundum er sagt: If you can't take the heat, stay out of the kitchen. Ég reyni að þýða þetta yfir á ástkæra ylhýra við tækifæri.

Thursday, March 8, 2007

Fyrsta færslan

Nýtt blogg hefur litið dagsins ljós. Eigandi þess er hinn eini sanni Jóhannes Gísli Jónsson og hér mun hann gleðja nemendur sína með uppljóstrunum og innsýn inn í háskalegt líf háskólakennarans.

Njótið vel!