Sunday, March 18, 2007

Mímisþing

Ég held að enginn hafi verið svikinn af Mímisþinginu í ReykjavíkurAkademíunni í gær en þar fluttu 9 íslenskunemar fyrirlestra um hin aðskiljanlegustu efni innan íslenskra fræða. Mér fannst allt koma saman svo úr varð einstaklega vel heppnað málþing, þ.e. fróðlegir fyrirlestrar, fjörugar umræður og góðar veitingar.

Mímisþingið í gær var líka skemmtilega þverfaglegt því kennararnir á staðnum voru ekkert að takmarka sig við sín sérsvið í spurningum og umræðum eftir fyrirlestrana. Þetta hefur kannski komið einhverjum íslenskunemum á óvart en skýringin er mjög einföld: sá sem hefur lifandi áhuga á einhverju sviði innan íslenskra fræða þarf mjög litla örvun til að flytja þann áhuga yfir á önnur svið eða jafnvel aðrar fræðigreinar. Það er því auðvelt fyrir málfræðing eins og mig að sogast inn í fyrirlestra um ævintýri og fantasíur eða bíla í ljóðum atómskáldanna.

Það má margt læra af Mímisþinginu í gær en það sem stendur upp úr í mínum huga núna er að þessi viðburður getur verið mikilvægur innblástur fyrir þverfagleg námskeið og rannsóknarverkefni af ýmsu tagi innan íslenskuskorar á næstu árum.

3 comments:

Anonymous said...

Jóhannes er farinn að blogga!

Þetta málþing hefur greinilega haft ýmiss konar áhrif á fólk.

Anonymous said...

Jóhannes!

Þurfum við að halda annað Mímisþing svo þú bloggir?

Jóhannes said...

Nei, en það hjálpar vissulega til!