Monday, April 2, 2007

Føroyskur tónleikur

Ég skellti mér á færeysku tónlistarhátíðina AME á Nasa á laugardagskvöldið. Það var "sera stuttligt" og gerði ekkert annað en að auka á þá miklu og stigvaxandi Færeyjadellu sem ég er haldinn. Það var sérstaklega gaman að heyra í Teiti þótt skvaldur áheyrenda hafi spillt þeirri upplifun að nokkru leyti. Eivør stóð líka mjög vel fyrir sínu eins og við var að búast. Og öllum væntanlegum Færeyjaförum í hópi íslenskunema vil ég benda á að það er hægt að nálgast verðlaunalag Eivarar "Grát ei" á ensku útgáfunni af heimasíðunni hennar en það er ágæt æfing í færeysku að hlusta á þetta hugljúfa lag.

Ég hélt reyndar ekki út allt prógrammið á laugardaginn því ég ákvað að sleppa hljómsveitinni Gestir sem stigu síðastir á svið. Ég heyrði í þeim á AME í fyrra og mér fannst þeir þá framleiða meiri hávaða en eiginlega tónlist. Það getur verið að það séu einhver ellimörk að kunna ekki að meta háværa rokktónlist en mér er slétt sama. Manni hlýtur að leyfast að hafa takmarkað umburðarlyndi á einhverjum sviðum.

2 comments:

Anonymous said...

Já, þetta eru greinilega einhver ellimörk. Varstu annars ekki orðinn árinu eldri þegar Gestir stigu á svið?

Jóhannes said...

Jú, mér tókst að eldast um heilt ár meðan á tónleikunum stóð og það er ekkert gabb.