Thursday, April 19, 2007

Sumar og sól

Það er sumardagurinn fyrsti í dag og af því tilefni hefur sólin skinið á okkur íbúa höfuðborgarinnar. Það væri nú samt synd að segja að það væri hlýtt. Það fannst mér a.m.k. ekki þegar ég fór út áðan að kaupa í matinn og skoða rústirnar af brunanum í miðbænum í gær. Þegar ég var búinn að glápa nægju mína á skemmtistaðinn Pravda vippaði ég mér inn í 10/11 í Austurstræti. Ég stoppaði ekki lengi við enda er ég ekki haldinn neinum valkvíða þegar kemur að mat. Ég gríp bara það sem matgræðgin segir mér að kaupa í hvert sinn. Þegar ég kom að kassanum sá ég forsíðuna á DV. Þar er vitnað í Steinunni í Nylon sem segir að Nylon-stelpurnar séu ekki heimskar. Það er gott að vita það en sagði ekki Nixon á sínum tíma að hann væri nú enginn skúrkur??

13 comments:

Anonymous said...

Það mætti halda að þetta með valkvíðann væri skot á mig...

Anonymous said...

Þeir sem eru í hrútsmerkinu eru yfirleitt mjög fljótir að ákveða sig í öllum málum.

Vatnsberar eru hinsvegar frjálslynd fiðrildi og eiga oft erfitt með að taka ákvörðun.

Jóhannes said...

Alveg rétt hjá þér, herra nafnlaus, og velkominn heim frá Þrymsey!

Anonymous said...

Herra nafnlaus er frú nafnlaus

Anonymous said...

dularfullt...

Jóhannes said...

Hefur frúin kannski sýnt mér plástur sem hún var með á puttanum?

Anonymous said...

Þar sem það eru a.m.k. helmingslíkur á því að þú hafir átt við mig segi ég takk fyrir það. En ég er hvorki herra né frú nafnlaus ...

Anonymous said...

Nei, frúin notar ekki plástra og ekki hatta en kannski slæður.

Hún borðar ekki fisk nema hann sé með sporð. Hún gleymdi að skrifa nafn en skildi eftir orð.

Jóhannes said...

Er frúin "hið ljósa man", bæði í nafni og útliti?

Anonymous said...

Snæfríður heiti ég ekki.

Nemo hic adest illius nominis.

Jóhannes said...

Úr því að þú lætur svona, þá segi ég bara: Re vera, cara mea, mea nil refert!

Svanhvít said...

Er huldukonan enn á huldu? Ekki var það ég, þó að ég sé nú ljóst man í nafni og útliti.

ps. ég er ánægð með að blogghugmyndin hafi ekki fallið í grýttan jarðveg...

Jóhannes said...

Já, hún er enn á huldu. Það er samt gott að fá það staðfest að þetta er ekki þú. Ég verð líklega að halda áfram að leita.