Thursday, April 19, 2007
Sumar og sól
Það er sumardagurinn fyrsti í dag og af því tilefni hefur sólin skinið á okkur íbúa höfuðborgarinnar. Það væri nú samt synd að segja að það væri hlýtt. Það fannst mér a.m.k. ekki þegar ég fór út áðan að kaupa í matinn og skoða rústirnar af brunanum í miðbænum í gær. Þegar ég var búinn að glápa nægju mína á skemmtistaðinn Pravda vippaði ég mér inn í 10/11 í Austurstræti. Ég stoppaði ekki lengi við enda er ég ekki haldinn neinum valkvíða þegar kemur að mat. Ég gríp bara það sem matgræðgin segir mér að kaupa í hvert sinn. Þegar ég kom að kassanum sá ég forsíðuna á DV. Þar er vitnað í Steinunni í Nylon sem segir að Nylon-stelpurnar séu ekki heimskar. Það er gott að vita það en sagði ekki Nixon á sínum tíma að hann væri nú enginn skúrkur??
Wednesday, April 11, 2007
Næsta vers
Páskafríið var bara gott þótt ég hafi ekki farið neina Þórbergsferð með tilheyrandi gjörningum og ölæði. Ég náði a.m.k. að gera eitthvað af því sem ég hefði átt að vera búinn að gera fyrir löngu ef ekki væri fyrir þessa sífelldu truflun sem kallast kennsla. En því fer nú brátt að ljúka og þá er hægt að fara að einbeita sér að öllum greinunum og fyrirlestrunum sem maður á eftir að semja og öllum rannsóknarverkefnunum sem eru að fara í gang. Samt er það nú þannig að þegar nemendur eru horfnir úr Árnagarði, að þá er eins og kyrrð dauðans færist fyrir staðinn. Maður hefur þá ómældan tíma til að stunda rannsóknir en sú inspírasjón sem fæst af umhverfinu er algerlega horfin. Að vísu verður nokkur hópur íslenskunema hér á sveimi í allt sumar í tengslum við ýmis rannsóknarverkefni í málfræði en þessir prúðu fyrirmyndarnemar koma nú ekki alveg í staðinn fyrir það ólgandi mannhaf sem oft mætir manni þegar kennslan er í fullum gangi.
Monday, April 2, 2007
Føroyskur tónleikur
Ég skellti mér á færeysku tónlistarhátíðina AME á Nasa á laugardagskvöldið. Það var "sera stuttligt" og gerði ekkert annað en að auka á þá miklu og stigvaxandi Færeyjadellu sem ég er haldinn. Það var sérstaklega gaman að heyra í Teiti þótt skvaldur áheyrenda hafi spillt þeirri upplifun að nokkru leyti. Eivør stóð líka mjög vel fyrir sínu eins og við var að búast. Og öllum væntanlegum Færeyjaförum í hópi íslenskunema vil ég benda á að það er hægt að nálgast verðlaunalag Eivarar "Grát ei" á ensku útgáfunni af heimasíðunni hennar en það er ágæt æfing í færeysku að hlusta á þetta hugljúfa lag.
Ég hélt reyndar ekki út allt prógrammið á laugardaginn því ég ákvað að sleppa hljómsveitinni Gestir sem stigu síðastir á svið. Ég heyrði í þeim á AME í fyrra og mér fannst þeir þá framleiða meiri hávaða en eiginlega tónlist. Það getur verið að það séu einhver ellimörk að kunna ekki að meta háværa rokktónlist en mér er slétt sama. Manni hlýtur að leyfast að hafa takmarkað umburðarlyndi á einhverjum sviðum.
Ég hélt reyndar ekki út allt prógrammið á laugardaginn því ég ákvað að sleppa hljómsveitinni Gestir sem stigu síðastir á svið. Ég heyrði í þeim á AME í fyrra og mér fannst þeir þá framleiða meiri hávaða en eiginlega tónlist. Það getur verið að það séu einhver ellimörk að kunna ekki að meta háværa rokktónlist en mér er slétt sama. Manni hlýtur að leyfast að hafa takmarkað umburðarlyndi á einhverjum sviðum.
Subscribe to:
Posts (Atom)