Friday, March 23, 2007
Hljómur framtíðarinnar
Það eru ekki margir sem vita að ég hef lagt fram örlítinn skerf til sögu íslenskrar dægurtónlistar. Og það sem meira er, þessi skerfur er svo lítill að ég var löngu búinn að gleyma honum þegar hann allt í einu rifjast upp fyrir mér síðastliðið miðvikudagskvöld. Þá heyrði ég viðtal í útvarpinu við tvo menn sem voru í tölvupopphljómsveitinni Sonus futurae sem starfaði í byrjun 9. áratugarins. Þetta mál er mér skylt því bróðir minn (sem er ári yngri en ég og býr núna í USA) var einn af aðalmönnunum í þessari hljómsveit og hann leitaði til mín þegar verið var að finna henni nafn. Hann vildi fá latneskt nafn sem merki 'hljómur framtíðarinnar' eða eitthvað því um líkt og með latneska orðabók að vopni var ég fljótur að greiða úr því: Hljómsveitin skyldi heita "Sonus futurae". Stuttu síðar var svo hljómsveitin að troða upp í MR og þá kom einn af latínukennurum skólans og benti þeim félögunum á að "Sonus futurae" væri ekki boðleg latína. Hljómsveitin ætti fremur að heita "Sonus futurus" (en "futurus" er lýsingarorð myndað af "futura" sem merkir 'framtíð'). Þá var auðvitað orðið of seint að breyta nafninu svo hljómsveitin sat uppi með mína brengluðu latnesku nafngift. Ég fékk þó aldrei neinar skammir fyrir þetta og hef ekkert samviskubit því hljómsveitin stóð aldrei undir nafni hvort sem var og lagði upp laupana tveimur árum eftir að hún var stofnuð.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Sönn latnesk máltilfinning er keppikefli allra lærðra manna. Fylgir sögunni hver latínukennarinn var?
Úr því að þú spyrð, þá get ég upplýst það að latínukennarinn var Ragnheiður Torfadóttir, móðir Guðrúnar Þórhalls. Ég held meira að segja að Guðrún hafi verið með henni umrætt kvöld því hún var þá stundakennari í MR.
Post a Comment