Tuesday, May 1, 2007

Próf, sviti og tár

Próftíðin er hafin hjá mér og það fyllir mig ekki neinni gleði frekar en fyrri daginn. Það er fátt skemmtilegt við það að semja próf eða taka á móti illu augnaráði nemenda þegar maður mætir á svæðið til að svara hugsanlegum spurningum þeirra. Það er heldur ekki gaman að hlusta á kvartanir yfir því hvað prófið hafi verið ómögulegt og svívirðilegt eins og ég hef svo oft þurft að gera. Verst af öllu er þó að þurfa að eyða mörgum dögum í að fara yfir allan prófbunkann þegar maður vildi miklu heldur geta einbeitt sér að rannsóknum og greinaskrifum.

En auðvitað væri hægt að létta sér lífið með því að semja próf sem eru bæði stutt og auðveld. Þá myndi enginn kvarta og prófyfirferðin tæki minni tíma. Gallinn er bara sá að ég hef aldrei getað fallist á þá hugmynd að hlutverk kennarans sé bara að koma nemendum í gegnum eitthvað tiltekið námsefni á sem þægilegastan hátt. Mér finnst miklu mikilvægara að háskólanám búi fólk undir líf og störf að loknu námi því á þeim vettvangi þarf sífellt að leysa verkefni sem maður hefur hefur aldrei leyst áður. Ég hef sjálfur notið ómælds góðs af því að hafa farið í gegnum erfitt og krefjandi nám og ég er ekki enn orðinn svo slappur og metnaðarlaus að ég vilji bjóða nemendum mínum upp á eitthvað sem er miklu lakara en það.